Bálför

Sérstakur grafreitur er fyrir duftker í Fossvogskirkjugarði (Sólland), Hafnarfjarðarkirkjugarði, Kópavogskirkjugarði, Garðakirkjugarði og Gufuneskirkjugarði. Einnig má jarða duftker í hvaða grafreit sem er með samþykki umsjónarmanns leiðis. Hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra er hægt að sækja um leyfi til að dreifa ösku látinna einstaklinga.

Þegar bálfararleiðin er valin fer athöfnin fram eins og við venjulega útför nema ekki er farið í kirkjugarð að athöfn lokinni. Stundum er kistan borin úr kirkju og viðstöddum boðið að að signa yfir hana.

Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfall bálfara orðið um 55%. Nánari upplýsingar um bálfarir má finna á vef Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma sem rekur einu bálstofu landsins í Fossvogskirkju.

Um meðferð duftkerja

Þegar útförinni lýkur er kistunni ekið í bálstofuna í Fossvogskirkju.

Gera má ráð fyrir að innan tveggja vikna verði bálför lokið.

Aðstandendur verða ekki látnir vita hvenær bálför er lokið og ættu ekki að huga að dagsetningu fyrir jarðsetningu duftkersins fyrr en að tveimur vikum liðnum.

Stundum getur verið lengri bið í bálstofunni en hægt er að vera í sambandi við útfararstjóra til að fá upplýsingar.

Mælst er til þess hjá bálstofunni og Kirkjugörðunum að jarðsetning duftkers fari fram innan þriggja mánaða frá útför.

Fram að jarðsetningu er duftkerið varðveitt í bálstofunni.

Þegar aðstandendur fara að huga að jarðsetningu þarf að velja dag og tíma.
Jarðsetningar duftkerja fara fram á virkum dögum milli 09.00 og 15.00 nema föstudaga þá er yfirleitt síðasti tíminn 11.00.

Panta þarf tíma með minnst 2 daga fyrirvara.

Það er gert þannig að aðstandendur hafa samband við útfararfstjóra og leggja fram óskir um dag og tíma. Hann sér þá um að panta tíma í kirkjugarðinum og staðfestir við aðstandendur.

Hægt er að velja um nýjan grafreit eða jarðsetningu í leiði hjá ættingja.
Ef jarðsetja á í leiði ættingja þarf rétthafi leiðisins oftast að gefa skriflegt leyfi.
Útfararstjóri gefur upplýsingar um rétthafa og prentar út eyðublað ef þarf.
Ef nýtt leiði er valið er hægt að fá leiði við hliðina á fyrir eftirlifandi maka.

Aðstandendur velja hvort prestur er viðstaddur jarðsetningu og boða hann.

Á jarðsetningardegi hittast aðstandendur við leiðið og útfararstjóri kemur með duftkerið. Þar fer fram stutt stund þar sem duftkerið er jarðsett.
Oftast lýkur svo stundinni á að aðstandendur moka moldinni yfir.

Rétt er að minna aðstandendur á að huga að merkingu á leiðið.
Hvort sem um er að ræða tímabundna merkinu eins og trékross og skilti eða legstein.