Hvað tekur útfararþjónustan að sér?

Frímann & Hálfdán – Útfararþjónusta annast útfarir frá öllum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu.
Í þjónustunni felst m.a. að:

  • Flytja hinn látna í líkhús
  • Aðstoða við val á kistu, rúmfötum og líkklæðum
  • Útvega kapellu til kistulagningar
  • Útvega kirkju
  • Panta organista, söngfólk og
    hljóðfæraleikara
  • Útvega legstað í kirkjugarði
  • Panta blómaskreytingar
  • Aðstoða við val á tónlist
  • Útbúa sálmaskrá
  • Aðstoða við öflun líkbrennsluheimildar
  • Útvega duftker
  • Útvega kross og skilti á leiði
  • Stjórna útför

Hvernig á að skipuleggja útförina?

Útför fer yfirleitt fram sex til tíu dögum eftir andlát. Áður en ákvarðanir eru teknar um fyrirkomulag útfararinnar þarf að ganga úr skugga um hvort fyrir liggi óskir hins látna þar að lútandi. Hafi hann sett fram ákveðnar óskir um útförina ber að sjálfsögðu að virða þær
ef unnt er.

Hvort sem óskir hins látna liggja fyrir eða ekki þurfa aðstandendur að taka afstöðu til fjölmargra atriða. Frímann & Hálfdán – Útfararþjónusta getur annast alla þætti útfararinnar en yfirleitt sjá aðstandendur um auglýsingar og erfidrykkju. Starfsmenn Útfararþjónustunnar ráðleggja fólki að sjálfsögðu í þessum efnum eins og öðrum sé eftir því leitað.

Prestur

Aðstandendur ráða því hvaða prestur sér um útförina. Þeir snúa sér yfirleitt til sóknar- eða safnaðarprests eða til útfararstjóra sem hefur samband við þann prest sem óskað er eftir. Huga þarf að því að taka saman helstu æviatriði hins látna.

Staður og stund

Ákveða þarf stað og stund fyrir kistulagningu og útför í samráði við prest. Útför getur farið fram í hvaða kirkju sem er á höfuðborgarsvæðinu. Útfarartímar eru þrír,kl. 11.00, 13.00 og 15:00, mánudaga til föstudaga. Á föstudögum loka flestir kirkjugarðar kl 12.00. Því er ekki hægt að jarðsetja að útför lokinni nema að útförin hefjist kl. 10.00.

Kistulagning

Kistulagning fer venjulega fram sama dag og á sama stað og útförin. Stundum fer kistulagningin fram á sér degi og þá frá Fossvogskapellu eða kapellunni í Hafnarfjarðarkirkjugarði. Kistulagt er alla virka daga frá 09.00 – 15.00 nema föstudaga til 11.00.

Legstaður

Ef frátekinn legstaður er ekki fyrir hendi mun útfararstjóri útvega hann í samráði við aðstandendur. Rétt er að hafa í huga að hægt er að taka frá einn legstað við hlið hins látna.

Kistur og krossar

Nokkrar gerðir af kistum standa til boða hjá Útfararþjónustunni. Hvítmálaðar kistur eru algengastar en auk þeirra fást gegnheilar eikar-, furu- og birkikistur og umhverfisvænar kistur. Fólk ákveður jafnframt hvort það vilji merkja leiðið með áletruðum trékrossi og er hann settur upp strax eftir jarðarför.

Önnur atriði

Taka þarf afstöðu til fjölmargra atriða. Meðal þeirra má nefna:

Val á sálmum og annarri tónlist.

Sálmaskrá, velja myndir og ákveða fjölda eintaka.
Val á tónlistarfólki, svo sem organista, öðrum hljóðfæraleikurum, kórum og einsöngvurum.
Val á kistuskreytingum. Hægt er að sveipa kistuna íslenska fánanum í stað blómaskreytingar.

Ákveða hve margir og hverjir beri kistuna.

Dánarvottorð

Læknir hins látna eða krufningarlæknir gefur út dánarvottorð. Aðstandendur tilkynna andlátið hjá skiptaráðanda og leggja þar fram dánarvottorðið. Skiptaráðandi heldur vottorðinu en skriflega staðfestingu skiptaráðanda skal síðan afhenda þeim presti sem annast útförina.

Í kyrrþey

Sumir óska eftir því að útför fari fram í kyrrþey og þurfa aðstandendur þá að meta hvort virða skuli óskina. Rétt er að íhuga að flestir prestar og sálfræðingar telja að betra sé fyrir aðstandendur að útförin sé opinber. Einnig er mikilvægt að virða þörf allra þeirra sem vilja taka þátt í kveðjuathöfninni og heiðra minningu hins látna. Þegar útför er í kyrrþey er hún oftast ekki auglýst heldur bjóða aðstandendur til athafnarinnar.

Auglýsingar

Venja er að tilkynna andlát með auglýsingu í dagblöðum og stundum útvarpi. Því næst er auglýst hvenær útför fer fram og loks er algengt að þakka fyrir auðsýnda samúð með auglýsingu eftir útförina. Oft er andlátstilkynning og útfarartilkynning í sömu auglýsingu. Sumir kjósa að senda út þakkarkort. Stundum er tekið fram í auglýsingum að blóm og kransar séu afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hins látna er bent á að snúa sér til líknarfélaga. Á vefnum Minningar.is er hægt að setja inn tilkynningar og minningargreinar notendum að kostnaðarlausu.

Útfararstyrkir

Aðstandendur þurfa að kanna rétt sinn vandlega um leið og útför er skipulögð. Mörg stéttarfélög taka þátt í útfararkostnaði félagsmanna sinna.

Aðrar leiðir

Hægt er að velja borgaralega útför án þjónustu prests. Fólk úr öðrum trúfélögum en kristnum og fólk utan trúfélaga á rétt á legstað í kirkjugörðum. Þjónusta Útfararþjónustunnar stendur því að sjálfsögðu einnig til boða.

Hvernig fer útförin fram?

Útför er kveðjuathöfn samfélagsins. Nánasta fjölskylda hins látna situr á fremstu bekkjum vinstra megin í kirkjunni en líkmenn hægra megin. Venja er að sex eða átta nánir ættingjar og vinir beri kistuna. Kistan er borin út undir eftirspilinu. Þegar blóm og kransar eru við kistu þarf að huga að því hverjir beri þá úr kirkju.

Útför gæti farið fram eins og hér segir:

  • Forspil
  • Bæn
  • Sálmur eða tónlistarflutningur
  • Ritningarlestur
  • Sálmur eða tónlistarflutningur
  • Guðspjall
  • Sálmur, einsöngur eða einleikur
  • Minningarorð
  • Sálmur, einsöngur eða einleikur
  • Bæn/Faðir vor
  • Sálmur
  • Moldun
  • Sálmur
  • Blessun
  • Eftirspil

Stundum kastar prestur rekum í kirkjugarðinum
í stað þess að molda í kirkju.

Greftrun

Eftir athöfn í kirkju er kistan borin út. Þeir kirkjugestir sem þekktu
hinn látna náið taka þátt í líkfylgdinni í kirkjugarðinn.

Þar heldur athöfnin áfram:

Kistan er borin úr bíl og látin síga í gröfina.
Prestur segir nokkur orð og fer með bæn.
Syrgjendur signa yfir kistuna.

Blóm eru látin til hliðar við leiðið. Þegar gröfin er frágengin
eru blóm og kransar settir ofan á leiðið.